Hægt að sækja eða fá sent
Kíktu við á opnunartíma
Sendingarkostnaður 690 kr.
Frí sending ef verslað fyrir 8.000 kr.
Auðvelt að skila
við endurgreiðum vöruna!

Hvað er doula? Viðtal við Soffíu Bæringsdóttur

 

 

 

 

 

Við vorum svo heppin að ná tali af Soffíu Bæringsdóttur, doulu og fæðingafræðara og eiganda Hönd í Hönd, verslunar með taubleyjur og burðarpoka. Við fengum að spyrja hana nokkurra spurninga.

Í hverju felst starf þitt sem doula?

Starf mitt felst fyrst og fremst í því að styðja barnshafandi konur og verðandi fjölskyldur á meðgöngu og í gegnum fæðingu. Á meðgöngu er það að veita fræðslu og stuðning, styðja konur í því sem þær vilja og vita að þær þurfa og svo veiti ég samfellda þjónustu í fæðingu, það er ég er með parinu alla fæðinguna frá því þau óska eftir mér þar til fæðingin er afstaðin, engin vaktaskipti, engar pásur heldur stuðningur sem er alla leið. Skiptir ekki hvort fæðingin er 2 tímar eða 42. Í fæðingunni er ég svo að reyna að létta undir, gera hlutina þægilegri og vernda fæðingarminninguna. Eftir fæðingu hitti ég svo parið tvisvar eftir fæðingu, til að fara yfir fæðinguna og líðan og kveðja.

Hvað kom til að þú ákvaðst að velja þennan starfsvettvang?

Áhuginn kviknaði fyrir 10 árum. Þá hlotnaðist mér sá heiður að vera viðstödd fæðingu vinkonu minnar. Ég fór í þá fæðingu svo frekar lítið undirbúin, las held ég fimm blaðsíður í Í Upphafinu eftir Huldu Jensdóttur (þar sem ég heyrði fyrst um doulur) og mætti svo og gerði bara ráð fyrir að þetta yrði stutt og skemmtilegt og hróðurssaga fyrir mig. Ég held ég hafi samt lært meira í þessari fæðingu en flestum öðrum. Fæðingin var löng og strembin og ég átta mig mun betur á því í dag hvað hún var rosalega strembin. Ég man enn hvað ég dáðist að þessari vinkonu minni fyrir styrk og elju og barnið litla sem fæddist var svo fallegt og það var svo skrýtið að vera í einhverju oxitocin skýi. Þá vissi ég að ég þyrfti að gera eitthvað tengt fæðingum.  Rúmu ári seinna fór ég svo að leita að námi tengdu fæðingum, ég vissi bara að þyrfti að vinna með þetta og fór í doulunám. Nú tíu árum seinna fylgir þessi tilfinning enn hverri einustu fæðingu og ég hef enn brennandi áhuga á barnsfæðingum. Ég eignaðist svo mitt fyrsta barn árið 2007 sem hægði aðeins á náminu en jók bara áhugann og hann hefur síst minnkað með árunum.

Hvað finnst þér erfiðast í starfinu?

Ég þurfti að hugsa mig vel um, því mér datt bara ekkert erfitt í hug en þó finnst mér alltaf erfitt þegar vonir eru brostnar eða þegar fæðingarnar eru erfiðar. Því fæðingar eru jú allskonar. Stundum geri ég mistök, það finnst mér líka erfitt. Ég er auðvitað mannleg í mannlegu starfi og á erfiðum tímum eiga erfiðar hugsanir það til að leita til manns. Það er sem betur fer sjaldnar þannig.

En skemmtilegast?

Nú hittiru á góðan streng. Starfið mitt er bara stórskemmtilegt og svo margar skemmtilegar hliðar á því.
Það fyrsta sem kom upp í hugann var að ,,eftirmálinn” er mjög skemmtilegur. Ég elska þegar ég rekst á fjölskyldurnar með krílin sín. Ég er líka svo lánsöm að ég fæ oft að fylgjast með þeim áfram. Ég man hvert par, hvert barn, hverja fæðingu.

Það er eitthvað við stundina þegar maður færist frá ótta yfir í framkvæmd sem er ólýsanlegt að vera þátttakandi í. Ég hef mikla ánægju af því að hjálpa fólki að undirbúa sig fyrir fæðingu og svo er mjög skemmtilegt að vera í fæðingum, eftirvæntingin, áreynslan, nándin, heilagleikinn og svo sameiningin. Skemmtilegt þegar fæðingin verður taktur eða ryþmi sem minnir mann á að við erum ekkert nema lítil ögn í stóra samhenginu og gaman að upplifa ,,vá ég gat þetta” -stundina með foreldrum.

Hvað er mikilvægasta ráðið sem þú getur gefið konu sem er að fara að fæða?

Að finna kjarnann sinn og fylgja honum, svolítið klisjukennt en samt það eina sem virkar. Bakgrunnur okkar er svo misjafn, væntingar svo ólíkar og þarfirnar mismunandi. Ef við vitum hvað við þurfum og afhverju, stöndum við sterkari uppi. Doulur hjálpa með það.

Hitt ráðið er að anda inn og anda svo frá og hafa útöndunina lengri en innöndunina. Það ráð virkar allstaðar í öllum aðstæðum og gerir allt einhvern veginn aðeins betra í þeim aðstæðum sem maður er.

Hvaða lífseigu mýtur þarftu oftast að uppræta um fæðingu og umönnun ungbarna?

Erfið spurning, en ég held að það sé að einn sé betri en annar eða að eitt sé betra en annað. Eða að við séum ekki nógu góðar í því sem við gerum. Það er leiðinda mýta sem leiðir ekki af sér neitt nema vanlíðan.

Við gerum allar (öll) okkar besta í hverjum þeim aðstæðum sem við erum, óháð öðrum. Það sem hentar okkur hentar ekki endilega öðru. Þetta á mjög við um fæðingar, fæðiru heima, á spítala, með maka, með doulu, í vatni, með mænudeyfingu, vaginalt eða keisara. Svo líka í umönnun, helduru mikið á barninu, of lítið, brjóst eða peli, upp í eða ekki.

Barnsfæðing er bootcamp í sjálfstyrkingu og það er engin miskunn við verðum að átta okkur á hvað hentar okkur og bara okkur.

Er þjónusta doulu fyrir alla?

Já svo sannarlega, alla sem vilja stuðning og ekki síst samfelldan stuðning þ.e. sömu manneskjuna sem þau þekkja allan tímann með sér. Það eru nokkrar mýtur sem ganga um störf doula sem eiga sér ekki stoð í raunheimum, svo sem að doulur séu bara fyrir konur sem stefni á heimafæðingar. Það er mikið algengara að doulur starfi inni á spítölum. Það er líka mýta að doulur hafi einhverja skoðun á verkjameðferð. Langflestar doulur styðja konur í því ferli sem þær eru og styðja þær óháð því hvort þær plani verkjastillingu frá upphafi eða skipti um skoðun og kjósi verkjastillingu þegar á hólminn er komið. Sumir halda að doulur komi í staðinn fyrir ljósmæður en hið rétta er að doulur starfa þétt með ljósmæðrum, doulur veita bara stuðning meðan ljósmæður eru heilbrigðisstarfsmenn sem taka á móti börnunum. Doulur veita líka samfellda þjónustu þ.e. sama manneskjan sinnir sömu konunni í fæðingu 100% meðan ljósmæðraþjónustan er samfelld þ.e. það er ljósmóðir sem sinnir konunni en þær taka vaktir og í raun ólíklegt að þær þekki konuna sem er í fæðingu.

Doulur og störf þeirra eru líka mjög mikið rannsakaðar, við ólíkar aðstæður í mörgum löndum og rannsóknarniðurstöður eru alltaf á þá leið að doula bæti fæðingarútkomuna og fæðingarminninguna til muna.

Soffía starfar á Fjölskyldumiðstöðinni Lygnu en einnig er hægt að versla hjá henni og hafa samband við hana á www.hondihond.is. 

 

Höfundur: Gabríela Bryndís Ernudóttir
Fyrri færsla / Nýrri færsla

Skrifa athugasemd

Samþykkja þarf athugasemdir áður en þær eru birtar