Hægt að sækja eða fá sent
Kíktu við á opnunartíma
Sendingarkostnaður 690 kr.
Frí sending ef verslað fyrir 8.000 kr.
VERSLUNIN LOKAR
ALLT Á AÐ SELJAST

Hvað þarf ég að eiga fyrir fæðingu barnsins míns?

 
Margir verðandi foreldrar klóra sér í kollinum yfir því gríðarlega úrvali af barnavörum sem til eru og fá valkvíða yfir því hvað þarf að kaupa og hvað ekki. Við ákváðum því að taka saman lista yfir það sem gott er að vita og eiga fyrir fæðingu barns: 
 
Fatnaður
 • Nokkrar samfellur 
 • Nokkrar buxur (jafnvel með áföstum sokkum)
 • Heilgallar
 • Örfáar peysur
 • Hlýjan útigalla úr ull, flís eða öðru hlýju efni
 • Sokkar (sokkar eiga þó til að detta af fótum á litlum krílum og því mælum við með að eiga flíkur með áföstum sokkum)
 • Húfa og vettlingar
Mismunandi er hvaða stærðir henta hverju barni en ágætt er að miða við að meðalstór börn passi í stærðir 50-56 við fæðingu. Fyrirburar geta þurft stærð allt niður í stærð 40. Börn eru þó fljót að vaxa á fyrstu vikunum og mörg þeirra vaxa upp úr fæðingarstærðunum á örfáum vikum. 
Mikilvægt er að huga að því að þvo fötin áður en barnið fæðist, bæði til að fjarlægja bakteríur og vegna þess að notuð eru ýmis efni þegar fötin eru unnin sem geta verið skaðleg litlum börnum (og fullorðnum reyndar líka). Við mælum með lífrænt ræktaðri bómull til að sleppa við eiturefnin sem notuð eru í ólífrænni bómullarræktun. Ull er einnig eitt besta efni sem hægt er að fá fyrir lítil kríli. Ástæðan er sú að rannsóknir sýna að ungabörn eiga erfiðara með að halda líkamshitanum í jafnvægi og ullin hjálpar þeim gríðarlega hvað það varðar. Þá hafa rannsóknir einnig verið sýnt að börn sofi betur í ull, og vakni síður grátandi. Við mælum með að kíkja á úrvalið okkar frá Joha og Milkbarn Kids.
 
Bleiur
Ágætt er að kynna sér kosti og galla við taubleiur og bréfbleiur. Mikið af efni er til á youtube um notkun taubleia, en það getur virst dálítill frumskógur fyrir þá sem ekki þekkja það. Taubleiuforeldrar eru hins vegar flestir mjög ánægðir með val sitt og segja þetta ekki vera eins mikið mál og það virðist vera. Gott úrval af taubleium og fróðleik má nálgast á Bambus.is og Hönd í Hönd. Athugið einnig að sumar bréfbleiur eru svansmerktar, t.d. Libero og Bambo, sem þýðir að þær eru umhverfisvænni og heilsusamlegri en aðrar bréfbleiur. Ef þið ákveðið að velja bréfbleiur þá er gott að kaupa einn pakka af minnstu stærðinni og annan í stærð tvö því sum börn fæðast hreinlega of stór í minnstu bleiurnar. Börn nota í kringum 10-12 bleiur á sólarhring og því ágætt að miða við það þegar meta á hversu mikið á að taka með sér á fæðingardeildina.
 
Bossaþurrkur
Ekki er mælt með því að kaupa tilbúnar Baby Wipes fyrir nýfædd börn því í þeim eru oft efni sem börnin þola ekki alveg strax. Mælt er með að nota annars konar þurrkur, bleyttar í vatni og ef til vill smávegis af einhvers konar náttúrulegri olíu sem barnið þolir. Margir nota svampa eða grisjur en umhverfisvænast er auðvitað að nota margnota klúta. Þeir mýkstu eru úr flónel efni og fást til dæmis á Bambus.is.

Brjóstagjöf
Flestar mæður á Íslandi reyna að gefa barni sínu brjóst, þó það gangi ekki alltaf upp. Fyrir brjóstagjöf er gott að eiga:
 • Brjóstagjafahaldara sem er ef til vill örlítið stærri en móðirin passar í á meðgöngunni því oft stækka brjóstin þegar brjóstagjöf byrjar
 • Lekahlífar. Margar mæður þurfa sérstakar hlífar til að taka við leka úr brjóstum milli gjafa. Hægt er að kaupa einnota hlífar í apótekum en við mælum hins vegar með því að kaupa margnota hlífar sem eru umhverfisvænni kostur. 
 • Taubleiur/tauklúar. Við mælum með taubleiunum frá Milkbarn Kids sem eru úr lífrænt ræktaðri bómull. 
 • Ef til vill mun brjóstapumpa koma að góðum notum einhvern tímann en er þó ekki endilega nauðsynleg fyrstu dagana.
 • Sumum finnst mjög gott að eiga sérstakan brjóstagjafapúða sem styður við handleggi móður og höfuð barns. Einnig er hægt að nota venjulega púða sem stuðning. 
Svefn
Gott er að gera sér grein fyrir hvaða svefnaðstaða mun henta ykkur, barninu og heimilinu best. Mörg börn vilja sofa sem næst foreldrum sínum og endar það oft þannig að barnið sefur í hjónarúmi foreldra sinna. Því hefur barnahreiður eða babynest orðið vinsælt á síðustu árum því það gerir foreldrum kleift að hafa barnið nálægt sér án þess að auka hættu á ungbarnadauða. Við mælum þó alltaf með því að kynna sér fróðleik um öruggan samsvefn. Hér eru nokkrir möguleikar fyrir svefnaðstöðu:
 • Babynest. Við mælum með SleepCarrier sem fæst hjá okkur, en varan er einnig burðarrúm og dýna og meðfylgjandi axlaról býður upp á að bera barnið í burðarrúminu upp við líkama foreldris. 
 • Co-Sleeper rúm. Til eru sérstök rúm sem eru opin á hliðinni og festast við hjónarúmið. Þannig getur barnið sofið nálægt foreldri en samt í sínu eigin rúmi. 
 • Vagga. Til eru ýmsar gerðir, sumar eru á hjólum, aðrar eru þannig að hægt er að vagga barninu til og frá og enn aðrar festast í loftinu. 
 • Rimlarúm
 • Sæng, rúmföt, svefnpoki eða eitthvað sem barnið getur sofið í svo því verði ekki kalt. 
Ferðamáti
Mismunandi er eftir heimilisaðstæðum hvaða ferðamáti er mest notaður. Hér eru nokkrir möguleikar:
 • Barnavagn. Flestir vilja hafa möguleikann á að ferðast með barnið í vagni. Aðalatriðið er að vagninn sé á góðum hjólum og sé ekki skítugur eða illa farinn. 
 • Burðarpoki. Margir foreldrar og ungabörn taka hálfgerðu ástfóstri við þennan ferðamáta enda geta börn oft sofið mjög vel svona nálægt foreldrum sínum. Mikilvægt er að velja poka sem styður vel við læri barnsins svo barnið sitji líkt og froskur. Aðrir burðarpokar hafa verið gagnrýndir fyrir að fara illa með mjaðmagrind barna. Hægt er að versla góða burðarpoka hjá Hönd í Hönd.
 • Bílstóll. Athugið að ekki er mælt með að kaupa notaðan bílstól ef sagan er ekki þekkt, þ.e. hvort stóllinn hafi lent í árekstri. Einnig þarf að huga að því að bílstólar renna út eftir örfá ár vegna öryggisástæðna. 
Bað og snyrting
 • Börn þurfa ekki endilega sérstakt baðkar þó mörgum finnist það þægilegra. Hægt er að kaupa lítið innlegg sem sett er í vask eða baðkar sem styður við barnið þegar þú baðar það.
 • Fyrst um sinn er mælt með að rífa neglur af ungabörnum (þær eru mjög mjúkar og því minnsta hættan á að klippa í húðina með þessari aðferð og einnig verða þær ekki eins beittar). Seinna meir er ágætt að kaupa lítil naglaskæri til að klippa neglurnar.
 • Lítil greiða kemur sér vel til að greiða bæði hárið (ef eitthvað er) og til að skafa burtu ungbarnaskán sem myndast stundum á kollinum (þá er gott að bera olíu á hársvörðinn á undan). 
 • Ungabörn þurfa ekki sjampó nema hugsanlega í þeim tilvikum sem þarf að þrífa olíu burt eftir að hafa skafað burtu ungbarnaskán. 
Annað
Snuð! Við þekkjum ekkert foreldri sem hefur tekið þá ákvörðun að sleppa því að bjóða barninu sínu snuð og staðið við hana, en þó gæti það verið eitthvað sem þú myndir vilja skoða. Flestir foreldrar þakka hins vegar fyrir að geta róað barnið sitt með snuði. Sumir taka snuðið með sér á fæðingardeildina en aðrir vilja bíða með að bjóða barni snuð þangað til eftir að brjóstagjöfin er komin á gott ról, því sumir segja að snuðið gæti truflað. Ekki eru þó öll börn sem vilja snuð og getur það reynst þrautinni þyngri að reyna að fá börn til að taka snuð. Hvað sem þú velur að gera, þá mælum við eindregið með því að velja náttúruleg snuð sem innihalda engin eiturefni. Hægt er að versla slík snuð frá Natursutten hjá okkur. 
 
Við vonum að þessi listi gagnist verðandi foreldrum. Þessi listi er engan veginn tæmandi og svo ótalmargt fleira sem þið munið læra þegar barnið kemur í heiminn. Við óskum ykkur öllum góðs gengis í foreldrahlutverkinu!
 
Fyrri færsla / Nýrri færsla

Skrifa athugasemd

Samþykkja þarf athugasemdir áður en þær eru birtar